Öryggisverðir í Kringlunni hafa undanfarið átt í stökustu vandræðum með gamlingjagengi sem safnast hafa saman í verslunarmiðstöðinni og látið ófriðlega. Að sögn sjónarvotta er um að ræða fyrirfram skipulögð hópslagsmál og stympingar milli gengjanna, sem að auki viðhafa hróp og köll og ljótan munnsöfnuð.
Gengin eru einkum skipuð lífeyrisþegum 80 ára og eldri, sem „þrá tilbreytingu og spennu í innantómt og grámyglulegt líf sitt,“ eins og talsmaður þeirra komst að orði. Munu ýmsir einstaklingar innan gengjanna langt leiddir af lyfjaneyslu og áratuga áhorfi á sjónvarp, einkum sápuóperur og ofbeldisfulla breska sakamálaþætti.
Einhver dæmi um að ráðist hafi verið á starfsfólk verslanna og aðra viðkiptavini fyrir misgáning í hita leiksins, en nokkrir elstu ófriðarseggirnir eiga að sögn „nokkuð erfitt með að bera kennsl á hinn raunverulega óvin.“
No comments:
Post a Comment